top of page

Life, is a daring adventure

11031643_10153190220319083_8750468114362

Sagan mín

Áhugi og hrifnæmi

Ég hef alla tíð heillast af fólki í kringum mig. Áhugi, hrifnæmi, forvitni, aðdáun, eftirtekt og trú á samferðafólki mínu eru eiginleikar sem hafa fylgt mér alla tíð. Þegar mamma fékk vinkonur sínar í heimsókn sat ég oft hljóð við borðið, hlustaði á samtalið og fylgdist grannt með því sem fram fór. Mér fannst svo áhugavert að horfa á fólkið, hlusta á frásögur þess og fylgjast með þeim tilfinningum sem fylgdu. Ég vissi ekki framan af hvað ég ætti að gera við þessar gjafir mínar og þær áttu svo sannarlega ekkert endilega við þegar að sjálfri mér kom, mér fannst ég ekki hafa neitt sérstakt að segja eða fram að færa en alltaf skyldi það vera jafn auðvelt fyrir mig að gleyma stund og stað og verða hugfangin þegar ég hlustaði á fólk deila frá hjarta sínu, sigrum jafnt sem ósigrum.

​Sálarfegurð og sjálfsþekking

Ég tek auðveldlega eftir sálarfegurð fólks, styrkleikum þess og lífsgildum. Mér finnst afar gefandi að hlusta af athygli á frásagnir þess, sérstaklega þeim tilfinningum og lærdómi sem skapast hefur af því að fást við áskoranir. Þessir eiginleikar eru mér í dag jafnframt afar dýrmætir í minni vinnu. Það er mér eiginlegt að hafa áhuga á því að skilja eðli og ástæður hluta, að horfa jafnt bakvið tjöldin sem og að hafa yfirsýn yfir aðstæður. Þessa eiginleika hef ég þroskað mikið síðustu árin í gegnum eigin lífsreynslu og gegnum nám mitt. Sjálf hef ég gengið minn veg í þessum efnum, en leitin að þekkingu og skilningi á mér sjálfri hefur leitt mig á þann stað sem ég er á í dag. Mín bjargfasta sannfæring er sú að sjálfsþekking sé ein allra dýrmætasta þekking sem sérhver manneskja getur öðlast. En það getur verið nokkuð snúið að finna hana, því allt í kringum okkur eru áreiti sem draga okkur oftar en ekki frá okkur sjálfum frekar en að. Til að öðlast þessa mögnuðu þekkingu, sjálfsþekkingu, þarf að snúa athygli og orku í eigin barm og þar vil ég leggja mitt af mörkum með mínu starfi. 

Innra tog breytist í tog-streitu

Ákvörðun mín um að hefja nám í markþjálfun var tekin eftir að hafa staðið á krossgötum í lífinu árið 2015. Ég fann að ég hafði hvorki orku né nægan áhuga á að leggja út í starf sem grunnskólakennari, sem ég hafði þó menntað mig til. Á þessum tíma bjuggum við í fjarbúð hjónin, ég á Akureyri með börnin fjögur og Siggi minn ektamaki vann í borginni. Það eina sem ég vissi var að ég vildi finna fyrir drifkrafti, löngun og tilgangi með starfi mínu. Það yrði að hjálpa sálarlífi fólks á einhvern hátt og ég myndi sjálf þurfa að upplifa ákveðið frelsi í kringum starfið. Ég þurfti að finna akkúrat það starf sem myndi fá mig til að spretta fram úr rúminu á morgnana, eitthvað sem ég myndi brenna fyrir, vinnu sem væri svo skemmtileg að ég myndi í raun vinna hana án launa ef nauðsyn krefði. Þetta sem ég hafði "fæðst" til að gera og skila af mér sem lífsverki þessa lífs. Þannig virkaði mitt innra tog sem var að byrja að umbreytast í tog-streitu því hvorki vissi ég hvað þessi vinna hét né hvar ég ætti að hefja leitina að henni.

Afdrifarík ákvörðun

Eftir 10 ár af barna umönnun og uppeldi langaði mig að námið yrði ekki bara hagnýtt til að hjálpa öðrum heldur líka persónulega innihaldsríkt fyrir mig sjálfa. Það var komin þörf á að ég beindi sjónum mínum að konunni í speglinum og þar kom markþjálfun inn í sjónlínuna. Hún virkaði sem spennandi upphaf á þeirri vegferð, ég myndi bæði eignast verkfæri til að vinna með og ábyggilega fá eitthvað gott út úr því fyrir sjálfa mig líka. Námið reyndist einstakur happafengur og afdrifarík ákvörðun tekin á hárréttum tíma í mínu lífi. Ég kláraði grunnnám, framhaldsnám og alþjóðavottun í faginu hjá Evolvia og naut þess í botn að vinna með þetta nýfengna og dýrmæta verkfæri.

Háskólinn á Akureyri, jákvæð sálfræði og styrkleikaspilin

Í kjölfarið gafst mér tækifæri til að stíga inn í hlutverk markþjálfakennarans um tíma sem dýpkaði reynsluna enn frekar og efldi mig í starfi. Ég tók einnig að mér kennslu sem stundakennari við Háskólann á Akureyri þar sem ég fékk nánast frjálsar hendur til að skapa dag fyrir nemendur sem nefnist sjálfsþekking. Þeir tímar heppnuðust afar vel og hefur bæði nemendum og tímum fjölgað ár frá ári þau síðustu fjögur ár sem ég hef kennt þar. Vorið 2018 lauk ég námi í einstaklega skemmtilegu og áhugaverðu diplómanámi í jákvæðri sálfræði við Endurmenntun Háskóla Íslands, þar sem sjónum og rannsóknum er beint að þeim þáttum sem bæta líf okkar og auka vellíðan og hamingju. Námið fjallaði meðal annars um persónustyrkleika fólks, sem mér finnst afar gagnleg nálgun í minni vinnu, og leiddi síðar til þess að ég gaf út styrkleikaspilin Vertu sjálffræðingur í samvinnu við kæra vinkonu mína sem er líka markþjálfi. 

Hlín markþjálfun 

Á þessum tíma tók ég hundruð einstaklingsviðtala, hélt stutt námskeið og fyrirlestra fyrir hópa og sat fjölmörg námskeið sem tengdust sjálfsþekkingu og vexti á einhvern hátt. Ég stofnaði Hlín markþjálfun, en nafnið kom til af því að ég vann og vinn í dag langmest með konur og kvenorkuna, en nafnið Hlín merkir kona eða jörð. Hlín er líka millinafnið mitt og mér þykir mjög vænt um það.

Engar tilviljanir

Enn jókst áhugi og forvitni mín á vegferð manneskjunnar í gegnum lífið, mikil reynsla búin að bætast við og andlegur áhugi fór vaxandi, en ég hef haft áhuga á þeim málefnum síðan snemma á unglingsaldri. Eftir að hafa lesið Celestine handritið sem unglingur var ekki aftur snúið, ég hætti að líta á tilviljanir sem tilviljanir ef svo má segja og fór að reyna að skilja samhengi hlutanna út frá öðru sjónarhorni.

Gongið og tónlistin

Þessi áhugi varð sennilega til þess að ég varð bæði spennt og tilbúin til þess að eignast gong þegar mér stóð til boða að taka þátt í stórum viðburði með m.a. fjölda annarra gongspilara. Hljóðfærið fallega og dularfulla var einn góðan veðurdag komið í hús og á einhvern hátt nánast hægt að fullyrða að gongið hafi valið mig, en ekki öfugt. Þó ég hafi lært að spila á píanó í átta ár á unga aldri er ekki hægt að yfirfæra mikið af þeirri tónlistarþekkingu yfir á gongið, það krefst mun frekar hlutleysis og sterkrar tengingar við innsæið en það er einmitt og akkúrat það sem heillar mig hvað mest við nálgunina. Það er tengingin við augnablikið í sérhverju andartaki, nú-ið í núvitundinni, þetta nú-na sem inniheldur eilífðina sjálfa og allt sem er. 

European Transformational Teachers Gathering

Ekki er hægt að ljúka þessari frásögn öðruvísi en að nefna það þegar ég fékk boð um að fara á viðburð á Spáni með öðru fólki víðsvegar að úr Evrópu sem eiga það sameiginlegt að vinna með fólki í umbreytingum. Ég hélt þangað ein með fiðrildi í maganum, á einhvern hátt viss um að ég ætti að fara en engu að síður óörugg með mitt hlutverk sem kennari í umbreytingum. Það eina sem ég vissi var að það væri hlutverk sem ég vildi sinna á einhverjum tímapunkti. Sú ferð átti eftir verða næsti upphafsvendipunktur, en í gegnum það tengslanet hef ég nú ferðast til Ítalíu, Spánar, Frakklands, Danmerkur og Bretlands með gongin og spilað fyrir hundruðir manna, bæði ein og með kærri vinkonu. Alltaf leiðir eitt af öðru, það er eins og ég sé leidd áfram því orkan vill hreyfast og bæði gongin og ég erum tilbúin til að vinna okkar vinnu til að svo megi verða. 

Yoga Nidra, Fjörðurinn og Hlín slf.
Haustið 2020 lauk ég svo framhaldsnámskeiði í Yoga Nidra frá Integrative Amrit Institute, sem reyndist einstaklega heildræn og falleg viðbót við mitt fyrra nám og reynslu, en þetta nám útskýrir svo skýrt og vel mannlega reynslu og tilfinningar út frá sjónarhorni bæði jógafræðanna og vísindanna. Ég opnaði einnig dásamlega viðtals- og hljóðheilunaraðstöðu á 2. hæð í verslunarmiðstöðinni Firðinum, að Fjarðargötu 13-15. Fyrir áramótin 2020-21 stofnaði ég fyrirtækið Hlín slf. og hannaði svo og sendi í kjölfarið þessa heimasíðu í loftið í ársbyrjun 2021. Ég er afar stolt af þessum langþráðu áföngum. 

Viljinn til að vaxa

Í gegnum líf mitt, nám og starf hef ég kynnst dýrmætasta fjársjóðnum sem til er í heiminum, fyrir utan persónuleg tengsl við eigin sálarkjarna: fjölda dásamlegs fólks. Allt sem skiptir mig máli í vinnu með fólki er viljinn til að vaxa, að hafa opinn hug fyrir breytingum. Vaxtarhraðinn sjálfur skiptir minna máli en áttin sem stefnt er í, ef hún er tekin á réttum forsendum munu hlutirnir enda vel og eftirleikurinn verða auðveldur.

 

​Dásamleg ævintýravegferð

Hrifningin og eftirtektin sem minnst var á hér í upphafi hefur þroskast og birtist nú sem samhygð

og kærleikur til okkar allra sem erum á einn eða annan hátt að fóta okkur í lífinu á þessari jörð. Það

er vandlifað einn í sínu horni en saman og með almættinu er lífið ein dásamleg ævintýravegferð.

Velkomin!

Ég býð þig velkomna/velkominn í tíma til mín, hvort sem það er í einkatíma eða á námskeið.

Ég vinn fyrir þig sem ert tilbúin(n) að stíga að fullu inn í ljós þitt og vitund og

langar að finna og sinna tilgangi þínum í lífinu af öllu þínu hjarta. Það skiptir ekki máli hver

tilgangurinn er eða hversu mörg skrefin þangað eru, bara að þú búir yfir sterkri þrá eða löngun

innra með þér að nýta alla þína bestu styrkleika, hæfileika og reynslu jafnt þér og

heiminum til góðs

Ljós & töfrar,

Áshildur_edited.jpg
_T2A2778_edited_edited_edited.png
bottom of page